Fjöldi undirskrifta

11540

STÖÐVUM FELULEIKINN

Líðum aldrei ofbeldi gegn börnum

Stöðvum feluleikinn er átak UNICEF til að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum hér á landi. Á Íslandi búa 80.383 börn. Fleiri en 13.000 af þeim verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn, sum hver daglega. Ný tölfræði UNICEF varpar ljósi á þessa alvarlegu stöðu.

Skoða tölfræði hér.

Í ljósi þessa kallar UNICEF eftir byltingu fyrir börn. Við þurfum öll að taka höndum saman til að stöðva feluleikinn, læra að bregðast við ofbeldi og þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina.


Hver er feluleikurinn?

Feluleikurinn á sér margar birtingarmyndir...

  • Fullorðnir bregðast of sjaldan við þegar þau sjá, heyra eða grunar að barn sé beitt ofbeldi, hvort sem ofbeldið á sér stað inni á heimilum, í búðinni, í blokkinni eða í bæjarfélaginu. Í flestum tilfellum veit fólk einfaldlega ekki til hvaða aðgerða er best að taka.
  • Börn þora oft ekki að segja frá ofbeldinu eða átta sig ekki á því að þau hafi orðið fyrir ofbeldi.
  • Stjórnvöld hafa hingað til ekki tekið á ofbeldi gegn börnum af nægilegri festu og ekki haft fullnægjandi eftirlit með umfangi vandans, sem er forsenda þess að hægt sé að vinna markvisst gegn ofbeldinu.

Við viljum stöðva feluleikinn sem á sér stað í kringum ofbeldi gegn börnum á Íslandi.

Hvað viljum við að fólk geri?

Við viljum að fólk skrifi undir og skapi þannig með okkur breiðfylkingu fólks á Íslandi sem heitir því að breyta samfélaginu fyrir börnin okkar. Þessi breiðfylking lærir að bregðast við ef það grunar að barn búi við ofbeldi og þrýstir á stjórnvöld um breytingar.

Hvað gerist í framhaldinu?

  1. Þau sem skrifa undir fá sent upplýsingaspjald með leiðbeiningum um hvernig eigi að bregðast við ef grunur leikur á að barn verði fyrir ofbeldi.
  2. Undirskriftirnar verða afhentar stjórnvöldum til að þrýsta á að stofnað verði ofbeldivarnarráð sem safnar markvisst upplýsingum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi og beitir sér fyrir forvörnum og fræðslu.
  3. UNICEF mun nýta slagkraftinn til að þrýsta á öll sveitarfélög landsins til að setja skýra viðbragðsáætlun um ofbeldi gegn börnum.